Ásta Svavarsdóttir
Eiríkur Rögnvaldsson
Þórunn Blöndal

Ritstjórnarstefna

1. Inngangur

Á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins, var ákveðið að stofna sérstakan sjóð, sem síðar hefur hlotið nafnið Lýðveldissjóður. Til sjóðsins skyldu renna 100 milljónir króna á ári næstu fimm ár (1995-1999), og þar af skyldi helmingnum varið til að efla rannsóknir á lífríki sjávar, en hinum helmingnum til eflingar íslenskri tungu. Í greinargerð með ályktun Alþingis, og einnig í greinargerð með lögum um Lýðveldissjóð sem samþykkt voru sl. haust, er tekið fram að hluta fjárins skuli nota til að endurnýja og bæta kennsluefni í íslensku á ýmsum skólastigum.

Í desember 1994 var skipuð þriggja manna stjórn Lýðveldissjóðs, en í henni sitja Rannveig Rist, verkfræðingur, formaður; Jón G. Friðjónsson, prófessor; og Unnsteinn Stefánsson, prófessor. Í febrúar 1995 fól stjórnin tveimur framhaldsskólakennurum, Steingrími Þórðarsyni og Þórunni Blöndal, og einum háskólakennara, Eiríki Rögnvaldssyni, að gera tillögur að ritum sem æskilegt væri að semja til notkunar í framhaldsskólum. Þessi undirbúningsnefnd skilaði áliti til stjórnar Lýðveldissjóðs snemma í mars. Í því áliti var lögð megináhersla á nauðsyn þess að semja vandaðar handbækur eða yfirlitsrit um helstu þætti íslensks máls, og voru gerðar lauslegar tillögur um efni fimm slíkra rita. Auk þess var lagt til að samin yrðu allmörg kennsluhefti um ýmis málfræðileg efni. Þessar tillögur voru kynntar stjórn Samtaka móðurmálskennara í lok mars, og mæltust þar vel fyrir.

Stjórn Lýðveldissjóðs samþykkti að vinna eftir þeim ramma sem þessar tillögur setja, og ákvað að skipa sérstaka verkefnisstjórn til að hafa umsjón með framkvæmd þeirra. Tilkynnt var um skipan verkefnisstjórnar í Alþingishúsinu 17. júní 1995, en stjórnina skipa Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor, formaður; Ásta Svavarsdóttir, orðabókarritstjóri; og Þórunn Blöndal, framhaldsskólakennari.

2. Áætlun verkefnisstjórnar

2.1 Yfirlit

Verkefnisstjórnin tók þegar til starfa, og hóf verkið með því að endurskoða og útfæra tillögur undirbúningsnefndarinnar sem áður er getið. Þær hafa nú tekið nokkrum breytingum, þótt sömu meginstefnu sé fylgt.

Meginviðfangsefni verkefnisstjórnarinnar hafa verið tvö; annars vegar að ákveða hvaða rit skuli samin, og hins vegar hvernig skuli standa að samningu og útgáfu þeirra. Áætlað er að semja þrenns konar rit, sem gerð er grein fyrir í 2.2 hér á eftir. Ætlunin er að byrja á handbókunum þremur í 2. lið, og er stefnt að því að vinna við þær hefjist á haustmánuðum 1995. Þegar sú vinna er komin nokkuð áleiðis (á síðari hluta árs 1996) má fara að huga að almenna yfirlitsritinu í 1. lið og kennslubókunum í 3. lið, en hvortveggja byggjast að talsverðu leyti á þeirri grunnvinnu sem unnin verður í handbókunum.

2.2 Verkin

Ritin sem ætlunin er að semja skiptast í þrjá flokka:

  1. Eitt yfirlitsrit, þar sem fjallað verði um tvo meginþætti; annars vegar málið, einstaklinginn og samfélagið, og hins vegar helstu greinar íslenskrar málfræði. Undirkaflar í fyrri hluta gætu verið: mál og málfræði; mál og mannshugur; máltaka; mál og samfélag; málnotkun; málbreytingar; en í síðari hluta: hljóðfræði; hljóðkerfisfræði; beygingarfræði; orðmyndunarfræði; setningafræði; merkingarfræði; málsaga.
    Þetta rit verði ætlað öllum Íslendingum; kennurum, nemendum og áhugasömum almenningi. Textinn verður því að vera skiljanlegur án sérstakrar menntunar í málfræði. Því ber að forðast fræðiorð og hugtök þar sem almennt orðalag kemur að jafn miklu gagni. Heimildatilvísanir mega hér ekki vera inni í texta. Hins vegar er hægt að nefna helstu heimildir í lok hvers kafla, og hafa þar einnig leiðbeiningar um frekara lesefni á viðkomandi sviði.
    Ritið verði u.þ.b. 600 bls. í stóru broti (eins og t.d. Orðabók Blöndals), og mikið verði lagt í útlit og myndræna framsetningu; prentun að einhverju leyti í lit. Nauðsynlegt er að hafa mikið af skýringarmyndum, og einnig öðrum myndum sem eru fremur til skemmtunar og fróðleiks, en tengjast þó textanum. Einnig skal nota töflur, en þær mega ekki vera of flóknar.
    Ýmiss konar ramma-, rasta- og spássíugreinar skal nota, ýmist til að draga út meginatriði textans eða til að koma á framfæri hliðarefni til skemmtunar og fróðleiks og útleggingar á textanum.
  2. Þrjár handbækur, þar sem fjallað verði um (1) hljóðfræði og hljóðkerfisfræði; (2) beygingar- og orðmyndunarfræði; (3) setningafræði og merkingarfræði; (sjá nánar tillögur undirbúningsnefndar frá í vetur). Í öllum þessum ritum verði viðfangsefnið skoðað bæði samtímalega og sögulega; þannig verði ekki samin sérstök bók um íslenska málsögu, heldur verði hún fléttuð inn í hverja grein.
    Þessi rit verði einkum ætluð kennurum, en einnig lengra komnum nemendum og öðrum sem eru tilbúnir að leggja eitthvað á sig til skilnings á textanum. Þar má því nota hugtök og fræðiorð talsvert meira og á annan hátt en í hinum ritunum.
  3. Tíu til fimmtán kennsluhefti, 50-100 bls. hvert, sérstaklega ætluð til notkunar í framhaldsskólum. Um efni þeirra vísast til tillagna undirbúningsnefndar frá í vetur, en verkefnisstjórnin hyggst fresta því um sinn að gera nánari áætlanir um þessi rit.

2.3 Vinnulag

Að hverju meginritanna fjögurra (þremur handbókum og almennu yfirlitsriti) verður ráðinn sérstakur ritstjóri, sem ber faglega og fjárhagslega ábyrgð á verkinu gagnvart verkefnisstjórn. Hann gerir nákvæma áætlun um efni og efnisskipan hvers rits, í samráði við verkefnisstjórn. Gert er ráð fyrir að ritstjóri hvers rits sé jafnframt meginhöfundur þess, en ráði sér meðhöfunda og aðstoðarmenn í samráði við verkefnisstjórn, innan þess fjárhagsramma sem ritinu er ætlaður.

Þegar kemur að kennslubókunum verður meginreglan væntanlega sú að verkefnisstjórn semur verklýsingu og auglýsir eftir höfundum. Höfundar verða síðan valdir á grundvelli menntunar, kennslureynslu, þekkingar og reynslu í kennsluefnisgerð o.s.frv.

Þegar líða tekur á verkið er áætlað að það verði boðið bókaforlögum til útgáfu. Ekki er enn ákveðið hvernig staðið verður að þeim málum í smáatriðum.

3. Skipulag vinnunnar

3.1 Stjórn Lýðveldissjóðs

Stjórn Lýðveldissjóðs skipar verkefnisstjórn og sér til þess að greiðslur til verkefnisins verði inntar af hendi. Verkefnisstjórn leggur fjárhagsáætlanir sínar og áætlanir um mannaráðningar fyrir stjórn Lýðveldissjóðs til staðfestingar, sbr. 9. gr. reglugerðar um Lýðveldissjóð. Sjóðsstjórnin gætir þess að verkáætlanir séu í samræmi við meginmarkmið sjóðsins, og fjárhagsáætlanir rúmist innan fjárhagsramma verksins. Hún fylgist síðan með framvindu verksins, og heldur reglulega fundi með verkefnisstjórn, t.d. ársfjórðungslega.

3.2 Verkefnisstjórn

Verkefnisstjórn ber alla faglega ábyrgð á verkinu, og fjárhagslega ábyrgð gagnvart stjórn Lýðveldissjóðs. Hún er einráð um verkið, innan þess ramma sem lög og reglugerð um Lýðveldissjóð og fjárveiting til verksins setja. Í fyrstu verður meginviðfangsefni verkefnisstjórnarinnar að skipuleggja verkið, en í því felst m.a. eftirfarandi: Einnig þarf verkefnisstjórnin að gera áætlanir um ytri umgjörð verksins; fjárhag, starfskjörum höfunda, aðstöðu o.þ.h. Þar má nefna eftirtalin atriði sem sinna þarf: Þegar verkið er komið af stað ber verkefnisstjórn að fylgja því eftir og sjá til þess að áætlanir standist. Meðal þess sem huga þarf að er eftirfarandi:

3.3 Ritstjórar

Að einstökum handbókum sem ætlunin er að semja (sjá 2. kafla) verða ráðnir ritstjórar sem bera faglega og fjárhagslega ábyrgð, hver á sínu verki, gagnvart verkefnisstjórn. Verkefnisstjórn gerir ritstjóra í upphafi grein fyrir fjárhagsramma ritsins, og hann gerir síðan áætlun um verkið í samræmi við þann ramma. Verkefnisstjórn leggur einnig fyrir ritstjóra hugmyndir sínar um efni, efnisskipan og efnistök. Ritstjóri semur nákvæma áætlun um þessi atriði og leggur fyrir verkefnisstjórn til samþykktar. Hann velur einnig meðhöfunda í samráði við verkefnisstjórn. Ritstjóri getur einnig ráðið sér aðstoðarfólk.

Tvenns konar samningar eru gerðir við ritstjóra; launasamningar og verksamningar. Launasamningar kveða á um tímalengd vinnu, starfshlutfall, launaflokk o.þ.h. Verkefnisstjórn gengur frá þeim, og sendir síðan áfram til starfsmannasviðs Háskólans. Ritstjórar verða ráðnir á mánaðarlaunum. Séu þeir starfsmenn háskólastofnana fá þeir greitt eftir sínum venjulega launaflokki, en aðrir verða metnir inn í launakerfi Félags háskólakennara, eða fá greitt í samræmi við samninga stéttarfélags síns, eftir nánari ákvörðun verkefnisstjórnar.

Í verksamningi kemur fram til hvaða verks ritstjóri er ráðinn, og hver eru réttindi hans og skyldur. Þar skal kveða á um stærð (arkafjölda) verksins, efni og efnisskipan (eins nákvæmlega og unnt er), efnistök (m.t.t. markhóps) o.þ.h. Einnig skal kveða á um frágang (s.s. á hvaða formi ritinu er skilað), uppsetningaratriði (tilvitnanir, heimildatilvísanir, spássíugreinar o.s.frv.) og aðra hliðstæða þætti, eftir því sem ástæða þykir til. Þá skal kveðið á um skiladaga, viðurlög við frávikum frá samningi, höfundarrétt o.s.frv.

Í upphafi verks gerir ritstjóri áætlun um áfangaskiptingu þess og ber undir verkefnisstjórn. Þar þarf að koma fram hvenær frumgerð og lokagerð hvers efnisþáttar skuli lokið. Hver áfangi skal ekki spanna lengri tíma en ársfjórðung, en æskilegt er að áfangar séu styttri í ýmsum tilvikum, allt niður í 1-2 mánuði. Þessi áfangaskipting skal bæði taka til þess sem ritstjóri semur sjálfur og þess sem meðhöfundar leggja til. Ritstjóri gerir einnig greiðsluáætlun í samræmi við þetta, og leggur fyrir verkefnisstjórn til samþykktar.

Ritstjóri fylgist með meðhöfundum og er ábyrgur fyrir skilum þeirra. Verkefnisstjórn fylgist hins vegar með því að ritstjóri standi við sína áætlun, og skal hann mánaðarlega gera verkefnisstjórn grein fyrir framvindu verksins. Telji verkefnisstjórn að verkið sé orðið verulega á eftir áætlun skal hún gefa ritstjóra xx vikna frest til að bæta úr því. Verði það ekki gert svo að fullnægjandi sé að mati verkefnisstjórnar er henni heimilt að segja ritstjóra upp störfum með xx mánaða fyrirvara og ráða annan.

Ritstjórum er skylt að taka þátt í fundum og/eða semínörum þar sem verk þeirra verða tekin til umræðu. Gera má ráð fyrir að slíkir fundir verði að jafnaði tvisvar á ári. Ekki er greitt sérstaklega fyrir þetta, heldur litið svo á að það sé innifalið í þeirri vinnu sem menn eru ráðnir til.

3.4 Meðhöfundar

Ritstjórar einstakra handbóka ráða sérfræðinga til að skrifa tiltekna kafla í handbækurnar. Meðhöfundar starfa á ábyrgð ritstjóra, og er hann ábyrgur fyrir verki þeirra og skilum. Við meðhöfunda eru gerðir tvenns konar samningar eins og við ritstjóra, þ.e. launasamningar og verksamningar. Verksamningarnir eru sama eðlis og samningar við ritstjóra, en launasamningar verða að jafnaði verktakasamningar, og greiðsla miðuð við ákveðna upphæð á hverja örk. Verkefnisstjórn sér um hvoratveggju samningana, eins og við ritstjóra.

Meginreglan er sú að meðhöfundar fá greitt eftirá, annaðhvort þegar verki þeirra í heild er lokið eða afmörkuðum áfanga þess. Að jafnaði verður helmingur umsaminnar þóknunar greiddur við skil frumgerðar, og eftirstöðvar þegar lokagerð er skilað. Ritstjóri tilkynnir verkefnisstjórn þegar hann telur eðlilegt að greiða meðhöfundi, og verkefnisstjórn sér um að greiðslan verði innt af hendi.

Dragist skil meðhöfundar fram yfir skiladag frestast greiðsla sem því nemur. Verði drátturinn meiri en xx vikur án þess að um lögmætar ástæður sé að ræða er ritstjóra heimilt, í samráði við verkefnisstjórn, að rifta samningnum og ráða annan höfund í staðinn. Hafi höfundur skilað frumgerð, en skil lokagerðar dragist úr hófi, er ritstjóra heimilt þegar komið er xx vikur fram yfir skiladag að ráða annan höfund til að fullvinna textann.

Meðhöfundum er, á sama hátt og ritstjórum, skylt að taka þátt í fundum og/eða semínörum um verkin, án þess að sérstök greiðsla komi fyrir.

3.5 Aðstoðarmenn

Ritstjórar geta ráðið sér aðstoðarmenn til ýmissa verka, s.s. í efnissöfnun, úrvinnslu, gerð ýmiss konar skráa, innslátt o.m.fl. Gera má ráð fyrir að hér verði einkum um stúdenta í framhaldsnámi að ræða. Þeir verða ráðnir á tíma-eða mánaðarkaupi í samræmi við taxta Félags háskólakennara. Við þá verður aðeins gerður launasamningur, en ekki sérstakur verksamningur, enda lúta þeir verkstjórn ritstjóra í einu og öllu.

3.6 Baknefnd

Til þess að sem flest sjónarmið komi fram verður tilnefnd ráðgefandi baknefnd, skipaða 12 manns, sem verður verkefnisstjórninni til ráðuneytis. Til setu í baknefnd verða einkum fengnir móðurmálskennarar úr framhaldsskólum og ýmsum sérskólum á háskólastigi, en einnig aðrir kunnáttumenn á því sviði sem hér um ræðir. Ekki er þó ætlast til að baknefndarmenn séu eða líti á sig sem fulltrúa tiltekinna stofnana, félaga eða fyrirtækja, heldur sitja þeir í nefndinni sem einstaklingar í krafti reynslu sinnar og þekkingar.

Hlutverk baknefndar verður einkum eftirfarandi:

4. Markmið og markhópur handbókanna

4.1 Markmið

Markmiðið með samningu handbókanna er að bæta úr brýnni þörf á ítarlegu yfirliti um íslenskt mál og málfræði. Verkunum er ætlað að draga upp heildstæða mynd af fræðigreininni í fortíð og nútíð auk þess sem kynntir verða nýir straumar innan fræðigreinarinnar og helstu viðfangsefnum málfræðinga undanfarin ár gerð nokkur skil. Áherslur eldri rannsókna eiga ekki að ráða ferðinni, þótt sjálfsagt sé að kynna þær eftir því sem þurfa þykir.

Vegna þess hvernig til ritanna er stofnað hlýtur að vera eðlilegt að í bókunum sé lögð sérstök áhersla á þætti sem gagnast kennurum og nemendum. Þar má nefna skilgreiningar fræðiorða, skrár af ýmsu tagi, umfjöllun um ýmis atriði málsins sem eru á reiki, o.m.fl.

Nánar tiltekið eru meginmarkmiðin sem hafa þarf í huga við samningu handbókanna eftirtalin:

Í bókunum þarf hvers kyns fróðleikur að vera settur fram á sem aðgengilegastan hátt, en jafnframt þurfa bækurnar að vekja áhuga lesenda á efninu og löngun þeirra til að fræðast meira um það. Eftirfarandi atriði verður m.a. að hafa í huga: Þetta er vitaskuld ekki tæmandi upptalning, og mjög gagnlegt væri að fá ábendingar frá baknefndarmönnum um fleiri atriði sem hafa þyrfti í huga.

Til Lýðveldissjóðs var stofnað í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldis á Íslandi. Kosta skal kapps um að ritverkin verði verðugur minnisvarði þeirra tímamóta í íslenskri sögu.

4.2 Markhópur

Samkvæmt b-lið 8. gr. reglugerðar um Lýðveldissjóð skal því fé sem verkefnisstjórnin hefur til umráða "varið til að endurnýja og bæta kennsluefni í íslensku máli, einkum á framhaldsskólastigi". Í 9. gr. reglugerðarinnar segir að verkefnisstjórn skuli "gera áætlun um gerð kennsluefnis, kennslu- og handbóka fyrir framhaldsskóla svo og efstu bekki grunnskóla og fyrstu ár háskólanáms." Hér eru eingöngu handbækurnar til umræðu, og helsti markhópur þeirra er kennarar (einkum í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum), en einnig ættu ritin að geta nýst kennslubókahöfundum, nemendum á málabrautum framhaldsskólanna og byrjendum í háskólanámi, svo og öðrum sem vilja fræðast um málfræði og íslenskt mál. Nauðsynlegt er að gæta þess vel að framsetning og hugtakanotkun falli að þörfum markhópsins. Eitt meginhlutverk baknefndarinnar er að tryggja að svo sé.

5. Framsetning, efnisskipan og efnistök

5.1 Ytri búningur

Gert er ráð fyrir að handbækurnar verði u.þ.b. 400-500 bls. hver, í allstóru broti (eins og t.d. Íslensk bókmenntasaga). Auk samfellds meginmáls verði þar ýmiss konar skrár og ítarefni; rammagreinar, myndir, teikningar, skýringarmyndir, línurit og töflur auk mynda-og skýringartexta. Til hægðarauka má skipta efni bókanna í þrennt.

Í fyrsta lagi er það samfellt meginmál, sem tekur u.þ.b. helming þess rúms sem er til ráðstöfunar; þetta getur þó verið breytilegt eftir bókum. Hlutverk þessa hluta er að gefa yfirlit yfir viðkomandi svið málfræðinnar; meginviðfangsefni, tengsl við önnur svið málsins, helstu rannsóknir, yfirlit um viðkomandi hluta íslensks málkerfis, samanburð við önnur mál, o.s.frv.

Í öðru lagi er hliðarefni; stuttir textar, dæmi, skýringarmyndir, töflur o.fl. til hliðar við meginmálið. Þetta efni getur ýmist verið til stuðnings og frekari skýringar á því sem þar er fjallað um eða laustengdara. Auk fróðleiks getur slíkt hliðarefni verið til skemmtunar og æskilegt væri að finna texta eða dæmi sem líkleg eru til að vekja eða ýta undir áhuga lesenda á efninu. Myndir hafa líka öðrum þræði það hlutverk að prýða verkið. Slíkt efni mætti taka u.þ.b. fjórðung rúmsins.

Í þriðja lagi er um að ræða skrár og yfirlitstöflur. Þar koma bæði heimilda- og atriðisorðaskrár ásamt tilvísunum til frekara lesefnis um tiltekin atriði, og einnig töflur og skrár þar sem fróðleik um ákveðin atriði er þjappað saman. Þetta gæti verið allt að fjórðungur verksins.

5.2 Framsetning

Höfundar geri sér far um að vanda efnisskipan og framsetningu og velji málsnið með lesendahópinn og tilgang ritanna í huga. Það á að vera vandað, en tiltölulega óformlegt, og nauðsynlegt er að málfar bókanna sé til fyrirmyndar. Nauðsynlegt er að stíllinn sé eins einfaldur og skýr og kostur er. Höfundar skulu kosta kapps um að gera bækurnar læsilegar, m.a. með því Hver höfundur hlýtur að setja sitt mark á textann, og er ástæðulaust að amast við því, en þó verður að gæta þess að samræmi sé í merkingu og notkun hugtaka og fræðiorða, og stíll einstakra höfunda skeri sig ekki um of úr heildinni.

Í samræmi við það sem áður er sagt um markhóp verður framsetning og hugtakanotkun að miðast við lesendur sem hafa góða almenna undirstöðumenntun, en ekki sérþekkingu í málfræði, og eru tilbúnir til að leggja nokkuð á sig til skilnings. Rétt er að stilla hugtakanotkun í hóf, og spara fræðiorð og hugtök þar sem almennt orðalag kemur að jafnmiklu gagni. Hins vegar verður auðvitað að kynna fjölda fræðiorða og hugtaka og þjálfa lesendur í notkun þeirra. Mest áhersla skal lögð á að kynna og skýra almenn og útbreidd hugtök sem ekki einskorðast við tiltekinn skóla eða stefnu í málvísindum.

Þegar hugtak eða fræðiorð kemur fyrst fyrir þarf að jafnaði að skilgreina það og skýra með dæmum. Þó getur staðið svo á að nota þurfi hugtakið áður en komið er að þeim stað í ritinu þar sem eðlilegt er að skilgreina það. Þá þarf að vísa á þann stað þar sem skilgreininguna er að finna. Meginatriðið er að tryggja að í hvert skipti sem fyrir kemur hugtak sem ekki er beinlínis verið að fjalla um í viðkomandi kafla geti lesendur umsvifalaust áttað sig á því.

Rétt er að forðast heimildatilvísanir í meginmáli. Þeim má þess í stað koma fyrir ýmist aftan við hvern kafla (undirkafla eða aðalkafla, eftir atvikum) eða á spássíum. Ekki er hægt að setja skýrar reglur um það hvenær hvor aðferðin á við, en í stórum dráttum má ætla að þegar verið er að vísa í rit til frekari fróðleiks, eða þegar verið er að endursegja heila greiningu o.þ.h., sé rétt að tilvísunin komi aftast. Þegar eitt tiltekið og afmarkað atriði er tekið eftir einhverju riti mætti hins vegar vísa í það úti á spássíu.

Neðanmálsgreinar verða ekki notaðar. Heimildatilvísunum, sem oft eru hafðar neðanmáls, verður komið fyrir með öðru móti, eins og nefnt var hér að framan. Önnur algeng notkun neðanmálsgreina er að setja þar fróðleiksmola sem ekki falla beint inn í meginefnið, eða slá þar einhverja varnagla, benda á aðrar hugsanlegar greiningar, o.s.frv. Minni þörf er væntanlega á slíku í yfirlitsriti en rannsóknarriti, en ef ástæða þykir til má vel koma efni af þessu tagi fyrir í ramma- eða rastagreinum í stað neðanmálsgreina.

5.3 Efnisskipan og efnistök

Eins og áður segir er ætlunin að meginmálið verði samfelldur texti, og því er æskilegt að skilgreiningar séu felldar sem mest inn í textann. Á hinn bóginn verður einnig að vera hægt að nota bækurnar sem uppflettirit, þannig að lesendur þurfa að geta flett upp á skilgreiningu og kynnt sér hana á augabragði, án þess að lesa heilan kafla. Því er nauðsynlegt að semja einnig stuttorðar (oft einfaldaðar) skilgreiningar hugtaka og fræðiorða sem ekki eru felldar inn í meginmál, heldur koma sem hliðartexti (ramma- eða rastagrein). Slíkan hliðartexta væri þá að finna á sömu síðu (eða opnu) og verið væri að fjalla um hugtakið í meginmálinu. Notandi sem flettir upp á hugtakinu fær þá stutta skilgreiningu á því, en getur á sama stað lesið sér nánar til um það. Einnig er hægt að hugsa sér að skilgreiningin sé endurtekin víðar í ritinu, þar sem hugtakið kemur við sögu, og þá fylgi henni tilvísun í þá síðu meginmálsins þar sem hugtakið er kynnt. Kosta þarf kapps um að þessar skilgreiningar séu sjálfum sér nægar, þ.e. hafi ekki að geyma önnur fræðiorð sem hugsanlegt er að notandinn þekki ekki. Þeim þurfa einnig að fylgja dæmi.

Meginmáli verður skipt í skýrt aðgreinda hluta og kafla. Rétt er að gæta þess að kaflar verði ekki of stuttir og textinn þar með sundurslitinn um of, og ekki ætti að hafa meira en eitt svið undirkafla. Í upphafi hvers kafla væri gott að hafa stuttan útdrátt (með öðru letri til að skera sig betur úr), og einnig má nota spássíutexta í stað kaflaskiptingar. Enn fremur má hugsa sér að hafa ítarlegt efnisyfirlit þar sem farið sé nokkrum orðum um innihald hvers kafla. Þrátt fyrir þetta getur verið æskilegt að höfundar kaflaskipti verkinu mun meira á vinnslustigi, og noti þá jafnvel mörg svið undirkafla. Slík vinnubrögð geta auðveldað mönnum afmörkun og uppröðun einstakra efnisþátta. Þótt kaflaskiptingin sé þá á yfirborðinu þurrkuð út fyrir prentun, og trufli þannig ekki lesandann, kemur hún honum eigi að síður að gagni við lesturinn.

Þar sem hér er um yfirlitsrit að ræða verða höfundar að verulegu leyti að byggja á eldri rannsóknum, sjálfra sín og annarra. Þó er óhjákvæmilegt að nokkuð verði um frumrannsóknir þar sem áberandi eyður eru í yfirlitinu. Að sjálfsögðu er þó ekki við því að búast að fyllt verði í allar slíkar eyður, en þarfir og óskir markhópsins hljóta að verða hafðar að leiðarljósi við val á rannsóknarsviðum. Þannig er einboðið að biðja baknefndarmenn um ábendingar um efni sem kæmi að góðu gagni í kennslu en hefur verið vanrækt vegna skorts á rannsóknum. Verkefnisstjórn ákveður svo, í samráði við ritstjóra einstakra binda, hver þeirra sviða verða tekin fyrir.

Verkefni höfunda verður að draga saman eldri rannsóknir og nýta þær, ásamt eigin framlagi, til að gefa sem heildstæðast yfirlit yfir sviðið. Ekki er ætlast til að höfundar endursegi eldri rannsóknir í smáatriðum, heldur skulu þeir taka efnið sjálfstæðum tökum. Óhjákvæmilegt er að hver höfundur velji og túlki efnið að einhverju leyti út frá eigin viðhorfum. Þó verður að ætlast til að höfundar gæti hlutleysis eftir því sem unnt er, og haldi ekki eigin greiningu um of fram, ef hún gengur í berhögg við almenn viðhorf fræðimanna til efnisins. Varast ber að lenda í fræðilegri rökræðu við aðra sem hafa skrifað um efnið.

Eðlilegast er að meginmálið sé samfelld heild, þar sem ákveðin lína er lögð í greiningu og túlkun og aðrar leiðir ekki viðraðar að marki. Í ritum af þessu tagi á notandinn kröfu á því að geta flett upp á einhverri "viðurkenndri" greiningu á tilteknu atriði, án þess að vera skilinn eftir með tvo eða fleiri möguleika sem hann þarf sjálfur að velja á milli. Á hinn bóginn er sjálfsagt að koma öðrum greiningarmöguleikum að í hliðartextum. Vel kemur til greina að aðrir en höfundur meginmáls í tilteknum kafla sjái um að velja og semja hliðartexta kaflans; þannig gætu komið fram fleiri sjónarhorn, önnur viðhorf, ný dæmi o.s.frv.

Höfundar skulu kosta kapps um að hafa ítarefni og rammagreina fræðandi og áhugavekjandi. Eðlilegt er að slíkt efni verði til skilningsauka, það einfaldi eða dragi upp með skýrum dæmum það sem um er rætt. Rammagreinar geta fullt eins vísað út fyrir texta bókarinnar, þar sé t.d. að finna dæmi úr daglegu máli, fróðleiksmola, skemmtisögur, kveðskap, þjóðsögur, tengingu við almenna vitneskju eða þekkta atburði úr mannkyns- eða Íslandssögu.

6. Markmið og markhópur margmiðlunardisks

6.1 Markmið og miðill

Markmiðið með margmiðlunarefninu, sem unnið verður í samvinnu við Námsgagnastofnun og hlotið hefur vinnuheitið Alfræði íslenskrar tungu, er að vekja áhuga á íslensku máli og fjölbreytileik þess. Nánar tiltekið eru meginmarkmiðin með útgáfu efnisins þessi: Í upphaflegri áætlun verkefnisstjórnar (sjá kafla 2.2) var gert ráð fyrir að semja í þessum tilgangi stórt yfirlitsrit, sem átti að geta gagnast nemendum, kennurum og áhugasömum almenningi. Þótt nú hafi verið ákveðið að skipta um miðil eru meginmarkmiðin hin sömu. Útfærsla þeirra verður þó að ýmsu leyti önnur vegna möguleika þess miðils sem notaður verður.

Tölvuvæðing íslenskra heimila hefur verið mjög ör á undanförnum árum, og einmenningstölvan er nú mikilvægur afþreyingar- og upplýsingamiðill auk þess að vera gagnlegt og spennandi kennslutæki í skólum allt frá grunnskóla og upp úr. Flestar nýjar tölvur eru nú með geisladrifi og hljóðkorti, sem gerir notendum kleift að nýta sér geisladiska með margmiðlunarefni, þar sem texti, mynd og hljóð vinna saman.

Nú þegar er mikið framboð á margmiðlunardiskum með hvers kyns fræðslu- og skemmtiefni, og ýmsir slíkir diskar fylgja oft nýjum tölvum. Þetta efni er að sjálfsögðu allt á erlendum tungumálum, einkum ensku. Fyrir lítið málsamfélag eins og það íslenska er mikilvægt að íslensk tunga sé nothæf og notuð við öll tækifæri, við nám, vinnu og leik. Það er hnignunarmerki á tungumáli þegar málnotendur treysta sér ekki lengur til að nota málið á öllum sviðum daglegs lífs, en telja sig þurfa að grípa til erlends máls í tilteknu samhengi.

Ef ungir tölvunotendur venjast því að hugsa um margmiðlun sem erlent efni - oftast engilsaxneskt - gæti íslensk tunga verið í hættu stödd. Annað meginmarkmið Lýðveldissjóðs er efling íslenskrar tungu. Verkefnisstjórnin vonast til að útgáfa margmiðlunarefnis um íslenska tungu á geisladiski geti orðið þar að liði.

Útgáfa fræðsluefnis um íslenska tungu á margmiðlunardiski getur

6.2 Markhópur

Samkvæmt b-lið 8. gr. reglugerðar um Lýðveldissjóð skal því fé sem verkefnisstjórnin hefur til umráða "varið til að endurnýja og bæta kennsluefni í íslensku máli, einkum á framhaldsskólastigi". Í 9. gr. reglugerðarinnar segir að verkefnisstjórn skuli "gera áætlun um gerð kennsluefnis, kennslu- og handbóka fyrir framhaldsskóla svo og efstu bekki grunnskóla og fyrstu ár háskólanáms".

Alfræði íslenskrar tungu er annar verkþátturinn sem hrint er af stað í nafni Lýðveldissjóðs. Fyrsti verkþátturinn inniheldur þrjár ítarlegar handbækur um íslenskt mál og eru þær einkum ætlaðar kennurum, kennslubókahöfundum og nemendum sem stefna að íslenskunámi í háskóla. Margmiðlunarefninu Alfræði íslenskrar tungu er einkum ætlað að þjóna nemendum í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum, svo og fróðleiksfúsum almenningi.

Þótt einkum sé miðað við unglinga má gera ráð fyrir að efnið nýtist prýðilega mun yngri nemendum. Það ætti líka að gagnast foreldrum sem vilja glöggva sig á því sem börn þeirra eru að læra í skóla eða vilja fræðast um tiltekin efni, s.s. máltöku barna. Þá má benda á að kennarar í grunnskóla geta nýtt sér efni disksins sem ítarefni/ritgerðarefni fyrir nemendur og veitt þeim um leið nauðsynlega þjálfun í að nálgast upplýsingar um tiltekið efni af margmiðlunardiski.

7. Ytri búningur, framsetning og efnistök

7.1 Ytri búningur

Verkið verður gefið út á geisladiski. Upphafleg áætlun um útgáfu bókar hljóðaði upp á 600 bls. í stóru broti þar sem gert var ráð fyrir að ýmiss konar myndefni tæki verulegt rými. Það má því gróflega gera ráð fyrir að sjálfur textinn verði sem nemur 500--1000 handritssíðum en það er ekki markmið í sjálfu sér að fylla diskinn alveg.

Mikilvægt er að taka verulegt tillit til miðilsins við framsetningu efnisins og að nýta kosti hans sem best. Margmiðlunardiskur hefur það fram yfir bók að þar má nýta bæði hljóð og hreyfimyndir og einkanlega hefur það fyrra augljósa kosti í verki sem fjallar um tungumál. Formið hefur einnig þann kost að hægt er að nálgast efnið frá fleiri hliðum en í bók þar sem framsetning er línulega og tiltölulega fastskorðuð.

Þetta er hins vegar á kostnað samhengis í textanum. Nauðsynlegt er að hann sé knappari en gengur og gerist í bókum og að hann sé brotinn upp í smærri einingar, helst þannig að skjáfylli af texta myndi að sem mestu leyti eina heild þótt síðan sé hægt að rekja sig frá þeim texta yfir í hliðar- og baktexta sem fylla myndina. Um slík atriði er fjallað nánar í kverinu Þrívíðir textar sem Heimir Pálsson hefur tekið saman og dreift hefur verið/verður til höfunda efnis.

Í orðinu margmiðlun felst að efni er miðlað á ýmsu formi og höfðað til sjónar og heyrnar notenda. Í grófum dráttum hafa höfundar og ritstjóri eftirfarandi möguleika á framsetningu efnis á diskinum og lögð skal áhersla á að nýta þá alla sem mest og best:

Væntanlegir höfundar efnis hafa það meginverkefni að semja texta en þeir eru eindregið hvattir til þess að hafa heildarmyndina sem mest í huga og varpa fram hugmyndum um stuðningsefni, bæði mynd- og hljóðefni, sem síðan er hægt að útfæra nánar í samvinnu við ritstjóra og útlitshönnuði. Einnig ættu þeir að hafa í huga að texta má bæði birta sem slíkan á skjánum og lesa hann upp, t.d. yfir myndir til skýringar á þeim, og rétt er að nýta sér báða möguleika eftir því sem ástæða þykir til.

Framsetning

Við gerð margmiðlunarefnis gilda önnur lögmál en við samningu bóka. Þegar bók er lesin er einatt um að ræða samfelldan texta með upphaf, miðju og endi. Í tölvulestrinum eru notaðar annars konar leikreglur og liggur í eðli miðilsins að hoppa fram og aftir í textanum og út á hlið líka. Þetta setur mark sitt á höfundavinnu við diskinn. Skrifaðan texta má hafa í nokkrum lögum, þ.e. megintexta (flettan sem birtist fyrst) sem ætlað er að vekja áhuga notenda og koma þeim á sporið, og baktexta sem grípa má í til skýringar eða frekari fróðleiks, annaðhvort í hverfiglugga eða til hliðar við megintextann. Textinn verður að vera knappur og brotinn upp í smáar einingar sem síðan má tengja á ýmsan hátt þannig að textabrotin raðist saman og styðji hvert annað.

Höfundar verða að hafa í huga að notendur geta komið að sama efninu úr mörgum mismunandi áttum. Á disknum verður leitarkerfi, þannig að hægt er að leita að tilteknum atriðisorðum og fá viðkomandi flettu á skjáinn. Einnig verður hægt að skruna gegnum atriðisorðaskrá og velja þar orð sem notendur vilja fræðast um. En þar fyrir utan er hægt að hugsa sér margvíslegar aðkomur; t.d. er hægt að nota myndir, tímaása o.m.fl. til að opna leið að tilteknu efni. Höfundar eru hvattir til að skoða sem flesta og fjölbreyttasta margmiðlunardiska til að fá hugmyndir um framsetningu og aðkomuleiðir.

Þar sem Alfræði íslenskrar tungu er einkum ætlað að vera áhugavekjandi fyrir yngri kynslóðina er mikilvægt að aðkoma sé áhugaverð og að skýringar, myndir og dæmi séu lýsandi og sniðin að þörfum þess hluta markhópsins. Undir þessu yfirborði má hafa baktexta sem sinna þörfum þeirra sem vilja fá ítarlegri upplýsingar eða fræðilegri. Lykilatriði er að hægt sé að leita að atriðisorðum eftir sem flestum leiðum og að auðvelt sé að nálgast upplýsingar og tengja þær upplýsingum á öðrum sviðum.

Megináherslu skal leggja á málið sjálft og hlutverk þess, en formleg málfræði verður höfð í bakgrunni. Að sjálfsögðu verður gengið út frá íslensku, en þó skiptir miklu máli að sjónarhornið sé vítt, og einnig sé fjallað um almenn einkenni tungumála, auk þess sem tiltekin mál verði höfð til samanburðar í einstökum atriðum.