Þórunn Blöndal verður ritstjóri af hálfu verkefnisstjórnar, og hefur hún verið ráðin í fullt starf a.m.k. út árið 1997. Samið hefur verið við Kvennaskólann, þar sem Þórunn er skipaður kennari, um að verkefnisstjórnin kaupi vinnu hennar af skólanum. Meginverkefni hennar verður að skipuleggja og fylgja eftir undirbúningi geisladisksins, en auk þess sinnir hún öðrum verkefnum sem verkefnisstjórn hefur á sinni könnu, eftir því sem færi gefst. Þórunn hefur m.a. unnið að því að kynna sér gerð margmiðlunarefnis, og sótti í október norrænt námskeið á því sviði sem haldið var í Stokkhólmi. Fyrir velvild forstöðumanns Orðabókar Háskólans hefur Þórunn til bráðabirgða fengið aðstöðu í húsnæði Orðabókarinnar að Neshaga 16.
Í skýrslu verkefnisstjórnar í fyrra var sagt frá því að Knútur Hafsteinsson íslenskukennari við Menntaskólann í Reykjavík ynni að því á vegum verkefnisstjórnar að safna upplýsingum um málfræðikennslu í framhaldsskólum og óskir kennara um kennslubækur. Frumniðurstöður úr þeirri könnun voru m.a. kynntar á árlegum fundur deildarstjóra í íslensku í framhaldsskólum, sem haldinn var í byrjun maí, en þar fór fram nokkur umræða um verkefni Lýðveldissjóðs. Knútur skilaði síðan lokaskýrslu í byrjun þessa árs.
Fyrir ári var gert ráð fyrir því að tillögur um kennsluefni lægju fyrir með vorinu (þ.e. vori 1996). Vegna þess að þá var ákveðið að ráðast í gerð geisladisks dróst að þessi vinna hæfist, því að allur starfstími verkefnisstjórnarinnar fór í undirbúning disksins. Í haust, þegar verkefnisstjórn ætlaði að snúa sér að samningu tillagna um kennsluefni, var hins vegar komið í ljós að til stæði að semja nýja námskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla. Því var ákveðið að bíða átekta og sjá hvert námskrárgerðin stefndi, í stað þess að leggja fram tillögur sem óvíst væri hvernig myndu falla að nýrri námskrá. Verkefnisstjórnin hefur þó ekki lagt þessi mál á hilluna, heldur lagt kapp á að fylgjast með námskrárgerðinni og hafa samráð við þá sem ynnu að henni. Fundir hafa verið haldnir með Jónmundi Guðmarssyni, verkefnisstjóra í menntamálaráðuneytinu, Sigfúsi Aðalsteinssyni, verkefnisstjóra í íslensku, og Sigríði Önnu Þórðardóttur, alþingismanni og formanni stefnumótunarnefndar.
Frá áramótum hefur verkefnisstjórnin svo unnið að því að móta rammatillögur um námsefni í málfræði og málnotkun handa framhaldsskólum. Gengið var frá þessum tillögum um miðjan febrúar, og þær sendar ýmsum móðurmálskennurum til umsagnar. Þær umsagnir eru að berast þessa dagana, og verði þær yfirleitt jákvæðar, sem flest bendir til, er ætlunin að leggja tillögurnar fyrir hóp þann sem vinnur að samningu námskrár í íslensku, í þeim tilgangi að sem best samræmi fáist milli væntanlegrar námskrár og þess efnis sem verkefnisstjórn lætur semja. Vitaskuld er óljóst hvaða viðtökur tillögurnar fá þar, og verkefnisstjórnin hlýtur að verða að laga endanlegar tillögur að þeirri námskrá sem samþykkt verður. En verkefnisstjórnin telur nauðsynlegt að bíða með endanlega útfærslu tillagna sinna a.m.k. fram á sumar, þegar væntanlega verður farið að skýrast hvernig námskráin verður.
Ritstjórar handbóka hafa haldið áfram vinnu sinni eftir áætlun. Verkefnisstjórn hélt fundi með þeim hverjum fyrir sig í haust, og í janúar var haldinn sameiginlegur fundur þeirra og verkefnisstjórnar, þar sem þeir gerðu grein fyrir stöðu verkanna. Þegar er farið að berast efni frá ritstjórum sem verkefnisstjórnin hefur farið yfir og gert athugasemdir við. Áhersla hefur verið lögð á það við ritstjóra að í lok þessa árs þurfi texti verkanna að vera langt kominn.
Tveir baknefndarfundir hafa verið haldnir síðan síðasta skýrsla var send; í mars og janúar. Þar hefur verið rætt um viðfangsefni verkefnisstjórnar, bæði verk sem eru í gangi og þau sem áformuð eru. Miklar umræður hafa orðið á þessum fundum og verkefnisstjórnin hefur haft af þeim verulegt gagn.
Verkefnisstjórnin telur nú að tvö meginverkefni hennar séu komin á góðan rekspöl, þ.e. handbækurnar þrjár og geisladiskurinn. Þriðji verkþátturinn, kennsluefnið, er hins vegar á eftir áætlun, en það stafar af óviðráðanlegum ástæðum eins og fram hefur komið. Verkefnisstjórnin vonast þó til þess að sá þáttur komist á skrið síðari hluta ársins. Í heildina er það mat verkefnisstjórnar að staða verksins sé þokkaleg. Hins vegar er verkefnið í heild mjög stórt, og ótrúlega margt sem huga þarf að. Það er ljóst að þetta ár sker úr um það hvernig verkið stenst áætlun, og að ári liðnu þurfa allir verkþættir að vera komnir vel á veg. Verkefnisstjórnin mun eftir mætti stuðla að því að svo geti orðið.
Reykjavík, 27. febrúar 1997
Í nafni verkefnsstjórnar
Eiríkur Rögnvaldsson,
formaður