Verkefnisstjórnin hefur frá upphafi haft þá stefnu að hafa sem nánast samstarf við Samtök móðurmálskennara og aðra sem tengjast móðurmálskennslu. Því var fljótlega ákveðið að stofna 12 manna baknefnd sérfróðra manna sem yrði stjórninni til halds og trausts meðan á verkinu stæði. Sú nefnd hittist í fyrsta skipti um miðjan september sl. Fyrir þann fund hafði verkefnisstjórnin tekið saman ritstjórnarstefnu, sem fylgir hér með. Þær hugmyndir sem þar koma fram fengu yfirleitt góðar viðtökur hjá baknefndarmönnum, og var fundurinn gagnlegur að mati verkefnisstjórnar. Einnig hefur verkið og áætlanir verkefnisstjórnar verið kynnt með grein í Skímu, blaði Samtaka móðurmálskennara, og fylgir sú grein hér einnig.
Í áðurnefndri ritstjórnarstefnu kemur fram að stjórnin ákvað að leggja í fyrstu aðaláherslu á undirbúning þriggja viðamikilla handbóka um helstu þætti íslensks máls. Einnig var ákveðið að sérstakur ritstjóri yrði ráðinn að hverri þessara handbóka, og hann réði sér samstarfsmenn í samráði við verkefnisstjórn. Hverri handbók yrði í upphafi markaður ákveðinn fjárhagsrammi, og ritstjórinn bæri ábyrgð á að verkinu yrði lokið á tilsettum tíma, og fyrir það fé sem væri til ráðstöfunar.
Gengið var frá ráðningu ritstjóra að þremur meginhandbókum í haust. Kristján Árnason prófessor hefur tekið að sér að ritstýra handbók um íslenska hljóðfræði og hljóðkerfisfræði; Guðrún Kvaran forstöðumaður Orðabókar Háskólans stýrir riti um íslenska beygingarfræði, orðmyndunarfræði og orðfræði; og Halldór Ármann Sigurðsson prófessor ritstýrir handbók um íslenska setningafræði. Fyrir jól höfðu þau öll skilað frumdrögum að efnisyfirliti, og milli jóla og nýárs hélt verkefnisstjórnin sameiginlegan fund með þeim, þar sem rætt var um efnisskipan og tengsl ritanna.
Í framhaldi af þessum fundi voru ritstjórarnir beðnir að gera áætlanir um það hvernig þeir hygðust standa að verki, hvernig vinna þeirra dreifðist á verktímann, hver yrði þáttur meðhöfunda o.s.frv. Þessar áætlanir liggja nú fyrir. Kristján hefur þegar hafið störf, Halldór mun hefjast handa af fullum krafti þegar kennslu lýkur í apríl, og Guðrún í sumar. Nú hefur einnig verið gengið frá reglum og leiðbeiningum um framsetningu og frágang, sem ritstjórarnir og aðrir höfundar eiga að fylgja. Verkefnisstjórnin telur að þessi þáttur verksins sé nú kominn á góðan rekspöl, og því geti hún snúið sér að öðrum þáttum í bili.
Í tillögum verkefnisstjórnar síðan í fyrrahaust er gert ráð fyrir samningu allnokkurra kennslubóka eða hefta um ýmis svið íslensks máls og málfræði. Verkefnisstjórnin hefur nú hafið undirbúning að þessum ritum, og þótti ráðlegt að fá einhvern vanan móðurmálskennara til liðs við sig til að safna upplýsingum meðal kennara um það efni sem notað væri í skólum, og hvað helst þætti skorta. Leitað var til Samtaka móðurmálskennara, sem brugðust vel við og bentu á Knút Hafsteinsson, íslenskukennara í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann vinnur nú að þessu verki, og er gert ráð fyrir að frumniðurstöður þess verði lagðar fyrir næsta fund baknefndar, sem verður í lok mars.
Lokaniðurstöður úr þessari úttekt ættu að liggja fyrir í lok apríl, en þá verður haldinn árlegur fundur deildarstjóra í íslensku í framhaldsskólum. Stjórn Samtaka móðurmálskennara hefur fallist á að þetta mál verði þar eitt meginviðfangsefnið, og væntir verkefnisstjórnin mikils af umræðum þar. Upp úr því, eða ekki síðar en um miðjan júní, er ætlunin að fyrir liggi fullmótaðar tillögur verkefnisstjórnar um þennan þátt verksins. Þá verður hægt að fara að ráða höfunda og semja við þá.
Vinna að þriðja verkþættinum, almennu yfirlitsriti, er á frumstigi. Bent hefur verið á að efni þess rits gæti hentað mjög vel til margmiðlunarútgáfu, og á þann hátt mætti ná til ýmissa sem ekki næðist til með prentaðri bók. Verkefnisstjórnin er nú að íhuga þetta, og hefur m.a. rætt við starfsmenn Námsgagnastofnunar, sem hafa manna mesta reynslu hér á landi í gerð margmiðlunarefnis. Enn hefur engin endanleg ákvörðun verið tekin um útgáfuform, en það verður gert í vor eða sumar.
Verkefnisstjórnin vonast til að um miðjan júní, þegar ár verður liðið frá skipun hennar, verði allir verkþættir komnir á nokkurn rekspöl, og telur að framvinda verksins sé þá vel viðunandi. Taka verður tillit til þess að svo viðamikið verk krefst góðs undirbúnings, og þeir sem að því vinna þurfa nokkurn tíma til að hagræða öðrum störfum sínum. Það verður hins vegar ekki fyrr en að öðru ári liðnu, um mitt ár 1997, þegar starfstími Lýðveldissjóðs er hálfnaður, sem hægt verður að leggja raunhæft mat á það hvernig takast muni að ná þeim markmiðum sem sett voru í upphafi.
Reykjavík, 7. mars 1996
Í nafni verkefnsstjórnar
Eiríkur Rögnvaldsson,
formaður