Til stjórnar Lýðveldissjóðs

Tillögur undirbúningshóps
um útgáfu rita um íslenska tungu
og málmenningu
fyrir skólaæsku landsins

8. mars 1995

Á fundi með stjórn Lýðveldissjóðs hinn 20. febrúar sl. var okkur undirrituðum falið að gera tillögur um "útgáfu nýrra rita um íslenska tungu og málmenningu fyrir skólaæsku landsins", eins og segir í greinargerð með frumvarpi til laga um Lýðveldissjóð. Við lítum svo á að því starfi sé lokið og fara tillögur okkar hér á eftir.

Virðingarfyllst,

Eiríkur Rögnvaldsson - Steingrímur Þórðarson - Þórunn Blöndal

 

1. Tillögur undirbúningsnefndar og rökstuðningur við þær

Undirrituðum var falið að gera tillögur að ritverkum sem kostuð yrðu af fé úr Lýðveldissjóði. Hér á eftir fylgja tillögur okkar og rök.

1.1. Tillögur

Við leggjum til að samin verði fimm yfirlitsrit, samtals 2500-3000 blaðsíður, og fimmtán kennsluhefti, samtals 750-1500 blaðsíður. Gert er ráð fyrir því að kennsluheftin byggist á yfirlitsritunum; í einstöku tilvikum verði e.t.v. hægt að taka heila kafla lítið breytta úr yfirlitsritunum og nota í hefti en oftast má þó búast við að nauðsynlegt verði að umskrifa efnið með lesendahópinn í huga.

Í upphafi hvers meginþáttar í yfirlitsbókunum er nauðsynlegt að hafa kafla þar sem skýrð eru helstu hugtök á viðkomandi sviði. Þess verður að gæta að hafa þessa kafla skýra og læsilega til þess að þeir fæli ekki lesendur frá. Talsvert er til af efni á sumum sviðum málfræðinnar sem nýta mætti í yfirlitsrit þau sem hér er lýst. Á öðrum sviðum er lítið sem ekkert til og þarf að gera ráð fyrir verulegri rannsóknar- og undirbúningsvinnu áður en skriftir geta hafist. Þá mun reynast nauðsynlegt að mynda og skilgreina fjölmörg ný íslensk fræðiorð á sumum sviðum málfræðinnar og er mikilvægt að þar takist vel til. Til að yfirlitsritin nýtist líka sem handbækur er nauðsynlegt að þeim fylgi ítarlegar skrár yfir beygingarflokka, setningagerðir o.fl.þ.h. auk atriðisorðaskrár.

Frá upphafi er mikilvægt að hugsa ekki eingöngu um texta bókanna heldur verður að leggja áherslu á að nútíma prenttækni sé nýtt til að gera útlit bókanna aðlaðandi og aðgengilegt og frágang vandaðan. Nauðsynlegt er að bækurnar svari kröfum tímans hvað varðar myndefni, sem bæði ætti að vera til skýringar og skrauts, og þyrfti að hafa sérstakan myndritstjóra með í ráðum frá upphafi. Þá má hugsa sér textadæmi, rammagreinar með ýmsum fróðleiksmolum eða ítarefni sem vísar út fyrir texta bókarinnar, spássíugreinar og fleira sem auðveldar lestur og gerir bækurnar áhugaverðar við fyrstu sýn (sjá The Cambridge Encyclopedia of Language eftir D. Crystal sem dæmi um bók sem okkur finnst eftirsóknarvert að hafa sem fyrirmynd). Hugsanlega mætti nýta eitthvað úr nemendaverkefnum í eigu Málvísindastofnunar sem innskotsefni í rammagreinar.

Við skipulag yfirlitsritanna er sjálfsagt að huga að því hvort hugsanlegt er að nota nýjar aðferðir til að milða efni til lesenda, s.s. á CD-ROM geisladiski, þar sem auðveldlega má tengja saman texta, hljóð og hreyfimyndir.

1.2 Rökstuðningur

Íslendingar hafa löngum haft áhuga á því að rækta tungu sína. Í grunn- og framhaldsskólum er íslenska sú námsgrein sem mestum tíma er varið í og í grunnskólum er málfræði í einhverri mynd fyrirferðarmest. Þrátt fyrir þetta er bókakostur í íslenskri málfræði býsna fátæklegur og brýnt að úr því verði bætt. Einkum er bagalegur skortur á ítarlegum yfirlitsritum sem gagnast myndu háskólastúdentum, kennurum, kennslubókahöfundum og almenningi. Án þess að rýrð sé varpað á þann bókakost sem til er þá er það til vansa að ítarlegustu yfirlitsritun sem bjóðast í setningafræði og beygingarfræði skuli vera á áttræðisaldri. Þessi rit eru Íslensk setningafræði eftir Jakob Jóh. Smára (frá 1920) og Islandsk Grammatik eftir Valtý Guðmundsson (frá 1922) og þörfin sést á því að bæði ritin hafa nýlega verið endurprentuð á vegum Málvísindastofnunar. Undanfarin ár hafa verið gefnar út gagnlegar orðabækur og handbækur af ýmsum toga. Þær bækur eiga það sameiginlegt að gera skil smáum einingum í málinu, s.s. orðum og orðasamböndum. Enn hafa ekki verið samin yfirlitsverk um málkerfið eða sögu íslensks máls og er brýnt að úr því verði bætt.

Alkunna er að miklar breytingar hafa átt sér stað innan fræðasviðs málfræðinnar á undanförnum áratugum. Menn nálgast viðfangsefnin á annan hátt en áður tíðkaðist og aðferðafræði í ýmsum greinum málfræðinnar er gjörbreytt frá því sem áður var. Mörg svið nútímamálfræði eru líkleg til að höfða til nemenda en þau hafa lítið sem ekkert verið kynnt í íslenskum kennslubókum. Okkur þykir mikilvægt að yfirlitsritin og kennsluheftin verði unnin í samræmi við breyttar áherslur og breytta tíma og verði lykill að bættum skilningi á fræðasviði íslenskrar málfræði.

Miklar breytingar hafa orðið í gerð námsefnis á undanförnum árum; nýjar kennslufræðilegar aðferðir eru notaðar og nýir miðlar nýttir til að koma efninu sem best til skila. Þessa sér t.d. stað í kennslubókum í erlendum málum. Það er okkar mat að til þess að vegur íslenskunnar verði sem mestur verði að sjá til þess að kennarar, nemendur og allur almenningur hafi aðgang að kennslubókum og ítarlegum yfirlitsbókum sem svara kröfum tímans um efnistök og útlit. Framhaldsskólar landsins eru með ýmsu sniði og einstaklingar innan nemendahópsins stefna að ólíkum markmiðum. Við þessum staðreyndum þarf að bregðast og við teljum að það verði best gert með því að semja fjölbreytt kennsluefni sem nýtist námsfólki á þeim námsbrautum sem það velur sér.

Þess vegna leggjum við til að samdar verði ítarlegar yfirlitsbækur og í tengslum við þær kennslubækur fyrir framhaldsskóla sem yrðu byggðar á stærri verkunum. Með því móti teljum við að hægt sé að stuðla að vexti og viðgangi íslenskrar málfræði innan skólanna og utan.

2. Yfirlitsrit og kennsluhefti

2.1 Yfirlitsrit

Eins og fyrr er nefnt er lagt til að gefin verði út fimm yfirlitsrit, 500-600 bls. hvert. Við álítum eðlilegt að efninu verði skipt á eftirfarandi hátt en teljum jafnframt að höfundar verði að vera óbundnir af hugmyndum okkar:
  1. Íslensk hljóðfræði, hljóðkerfisfræði og framburður.
    Hljóðfræði: Grunnhugtök hljóðmyndunarfræði og hljóðeðlisfræði. Hljóðritun. Íslensk málhljóð og myndun þeirra. Samanburður við tiltekin hljóð í skyldum málum. Mállýskur.
    Hljóðkerfisfræði: Grunnhugtök. Íslenska hljóðkerfið. Ýmis hljóðferli í íslensku. Lengd, áhersla, tónfall o.s.frv.
    Framburður: Munur á framburði þjóðfélagshópa eftir búsetu, aldri, stétt o.s.frv.
  2. Íslensk beygingarfræði, orðmyndunarfræði og orðfræði
    Beygingarfræði: Grunnhugtök; myndan, formdeild o.þ.h. Yfirlit yfir beygingarformdeildir í íslensku. Nákvæmt yfirlit yfir beygingu einstakra orðflokka með dæmum. Ítarlegar skrár.
    Orðmyndunarfræði: Helstu orðmyndunaraðferðir í íslensku; forskeyting, viðskeyting, samsetning o.s.frv. Skrár um forskeytt og viðskeytt orð.
    Orðfræði: Uppruni og aukning íslensks orðaforða. Nýyrði, tökuorð, slangur og slettur. Íðorð.
  3. Íslensk setningafræði
    Helstu setningarliðir; nafnliður, sagnliður, forsetningarliður o.s.frv.
    Setningafræðilegt hlutverk; frumlag, andlag, umsögn o.s.frv. Grunngerð íslenskra setninga. Aðalsetningar og aukasetningar. Flokkar aukasetninga. Orðaröð. Vensl setningagerða (kjarnafærsla, þolmynd o.s.frv.). Stílgildi orðaraðar.
  4. Íslensk málsaga
    Forsaga íslensks máls: Indóevrópska, frumgermanska, frumnorræna o.s.frv. Hljóðskipti, hljóðvörp, klofning o.s.frv. Skyldleiki indóevrópskra mála. Orðsifjafræði.
    Íslenskt mál að fornu: Hljóðkerfi, beygingarkerfi og setningagerð fornmáls með samanburði við nútímamál.
    Breytingar frá fornu máli til nútímamáls: Hljóðfræðilegar, beygingarlegar og setningarlegar breytingar. Breytingar á orðaforða.
  5. Lifandi mál
    Mál og samfélag: Félagslegir þættir málsins; mál ákveðinna þjóðfélagshópa (stéttamál, kynjamál o.s.frv.). Mál minnihlutahópa. Erlend áhrif. Breytingar á líðandi stund.
    Máltaka barna: Hvernig læra börnin málið? Hvenær nær barn valdi á tilteknum þáttum í málinu? Þróun á máltökuskeiði. Talgallar.
    Mál og mannshugur: Sálfræðilegir þættir máls. Málstol, dyslexia o.s.frv.

2.2 Kennslubækur fyrir framhaldsskóla

Hér verða nefnd kennsluhefti sem okkur sýnist að þörf sé á:

3. Verkefnisstjórn og vinnulag

3.1 Verkefnisstjórn

Þegar ráðist er í eins viðamikið verk og hér er lýst er mikilvægt að öll undirbúningsvinna sé vel og skipulega af hendi leyst. Í lögum er gert ráð fyrir að sjóðsstjórn gangist fyrir vali á þriggja manna verkefnisstjórn sem hafi á hendi faglega yfirstjórn verkefnaáætlana. Við teljum það hlutverk verkefnisstjórnar að semja verklýsingu og sjá til þess að henni verði framfylgt. Verkefnisstjórn þarf að hafa vald og getu til að krefjast breytinga á texta eða breyta honum sjálf ef nauðsyn krefur. Í verkefnisstjórn ætti að vera a.m.k. einn fulltrúi frá Háskóla Íslands og einn fulltrúi framhaldsskólakennara. Þá leggjum við til að myndritstjóri og starfsmaður sem sjái um réttindi og kjör vinni í nánu samstarfi við verkefnisstjórn. Mikilvægt er að verkefnisstjórn skipuleggi vinnu og móti innihald verka og telji sig óbundna af tillögum undirbúningsnefndar.

Áður en samið verður við bókaforlög um útgáfu verkanna má gera því skóna að gagnlegt yrði að gefa Félagi íslenskra bókaútgefenda kost á að tilnefna mann sem ynni með verkefnisstjórn og öðrum starfsmönnum eftir því sem þurfa þætti. Með því yrði lagður grunnur að farsælli samvinnu á síðari stigum vinnunnar.

3.2 Vinnulag

Gert er ráð fyrir að þeir sem skipa verkefnisstjórn skrifi sjálfir einhverja hluta yfirlitsrita en ráði fólk til að skrifa aðra þætti verkanna. Þessir verkþættir geta verið misstórir en eðlilegt er að hugsa sér 2-5 verkþætti í hverri bók. Ætlast er til að umsjónarmaður hvers verkþáttar skrifi textann að mestu leyti en þó geti hann ráðið sér aðstoðarmenn til gagnasöfnunar og úrvinnslu og einnig fengið sérfræðinga til að skrifa einstaka undirkafla. Til greina kemur að auglýsa eftir fólki til að skrifa tiltekna verkhluta.

Verkefnisstjórn ræður fólk til að skrifa kennsluefni eða felur einstaklingum að vinna tiltekin verk. Hægt er að hugsa sér að auglýst verði eftir höfundum og þeir ráðnir á grundvelli kennslureynslu og kennslufræðilegrar þekkingar, reynslu af samningu kennslubóka o.s.frv. Einnig er nauðsynlegt að hafa samráð við höfunda yfirlitsrita á hverju sviði við ráðningu námsefnishöfunda í tilteknum námsþætti.

Hugmyndin er að fræðimenn (háskólakennarar og aðrir) skrifi yfirlitsbækurnar að mestu leyti en framhaldsskólakennarar, eða aðrir sem búa yfir nauðsynlegri kennslureynslu og hæfni, skrifi kennslubærurnar. Þó verður að leggja áherslu á að höfundar tiltekins handbókarkafla og höfundur samsvarandi kennsluefnis hafi nána samvinnu undir umsjón verkefnisstjórnar.

Nauðsynlegt er að kennarar lesi allt efni yfirlitsbókanna vandlega og samþykki það og sömuleiðis þurfa fræðimenn að lesa kennsluefnið yfir og samþykkja það. Eins er brýnt að fræðimenn úr öðrum greinum komi að verkinu, t.d. sagnfræðingar, bókmenntafræðingar og listfræðingar. Með því móti væri tryggt víðara sjónarhorn en ella og nauðsynleg menningarsöguleg yfirsýn.

Gera verður ráð fyrir að fyrsta árið verði nær eingöngu fengist við nauðsynlegar rannsóknir og undirbúningsvinnu undir ritun yfirlitsbóka og vinna við þær hafin strax og hægt er. Á öðru ári ættu einhverjir kaflar yfirlitsritanna að vera komnir svo langt að hægt sé að fara að skrifa kennsluefni í tengslum við þá. Í upphafi þriðja árs þyrftu allir kaflar að vera komnir á það stig. Ef ítarleg lýsing á yfirlitsbók liggur fyrir frá upphafi verks er hugsanlegt að hvorttveggja sé unnið samhliða frá byrjun.

Við teljum eðlilegt að leitað verði til ritstjóra stórra verka, eða annarra sem hafa reynslu af því að skipuleggja viðamikil ritverk, til að fá ábendingar um verkfyrirkomulag og vinnu. Með því móti teljum við að vinnan geti orðið markvissari og minni hætta á skipulagsmistökum.

4.

[...]

5. Tillögur - samantekt

Hér á eftir er reynt að draga beinar tillögur út úr textanum, lesendum til glöggvunar. Undirbúningsnefndin leggur til að
  1. - samin verði fimm umfangsmikil yfirlitsrit um íslenska málfræði:
  2. - hverju yfirlitsriti fylgi ítarlegar dæmaskrár.
  3. - nútímaprenttækni verði nýtt til að gera útlit bókanna aðlaðandi.
  4. - myndefni verði veigamikill hluti af verkunum.
  5. - fræðimenn sjái um að skrifa yfirlitsritin og geti fengið til liðs við sig sérfræðinga þegar þörf er talin á.
  6. - samin verði u.þ.b. fimmtán kennsluhefti fyrir framhaldsskólanemendur. Heftin verði byggð á yfirlitsritunum að einhverju leyti.
  7. - höfundar yfirlitsrita og kennslubóka hafi með sér nána samvinnu.
  8. - í verkefnisstjórn verði þrír fulltrúar; a.m.k. einn frá Háskóla Íslands og einn framhaldsskólakennari.
  9. - ráðinn verði starfsmaður sem sjái um launa- og réttindamál höfunda og aðstöðu fyrir þá.
  10. - leitað verði til ritstjóra viðamikilla ritverka til að læra megi af reynslu þeirra.
  11. - verkefnisstjórn geri nákvæma verklýsingu áður en ráðið verður fólk til skrifta.
  12. - auglýst verði eftir fólki til að semja tiltekna verkhluta.
  13. - verkefnisstjórn sjái um að framvinda verksins sé í samræmi við verkáætlun.
  14. - reynt verði að semja við Málvísindastofnun Háskóla Íslands um að hún taki að sér að sjá um réttindamál og launagreiðslur og hugsanlega um afnot af aðstöðu.
  15. - að hendur væntanlegrar verkefnisstjórnar verði óbundnar að því er varðar framkvæmd og innihald verka.