Í báðum tölublöðum Skímu í fyrravetur var sagt frá starfi Verkefnisstjórnar í íslensku á vegum Lýðveldissjóðs, en það var þá nýhafið. Því var jafnframt heitið að halda slíkum frásögnum áfram meðan á starfinu stæði, út árið 1999. Enginn pistill var reyndar frá Verkefnisstjórninni í síðustu Skímu, en nú skal fram haldið.
Rétt er að rifja hér upp að Verkefnisstjórnin hefur skipt viðfangsefnum sínum í þrennt. Í fyrsta lagi er hún að láta semja þrjár viðamiklar handbækur, einkum ætlaðar kennurum, en einnig nemendum á síðari árum framhaldsskóla og byrjendum í háskólanámi. Að hverri þessara handbóka hefur verið ráðinn sérstakur ritstjóri, sem er jafnframt aðalhöfundur bókarinnar, en fær síðan aðra sér til liðsinnis í ákveðnum efnisþáttum. Handbók um íslenska hljóðfræði og hljóðkerfisfræði stýrir Kristján Árnason, prófessor; handbók um íslenska beygingar- og orðmyndunarfræði stýrir Guðrún Kvaran, forstöðumaður Orðabókar Háskólans; og handbók um íslenska setningafræði stýrir Halldór Ármann Sigurðsson, prófessor. Þau hafa nú unnið að bókunum á annað ár, og miðar samkvæmt áætlun. Efnisgrind allra bókanna liggur fyrir, og drög að einstökum köflum, en að öðru leyti er ekki margt að segja um þennan verkþátt að sinni.
Annar meginverkþáttur er margmiðlunarefni um íslenskt mál, sem ætlunin er að gefa út á geisladiski. Hér er um að ræða samstarfsverkefni milli Verkefnisstjórnarinnar og Námsgagnastofnunar. Ritstjórar eru þau Þórunn Blöndal fyrir hönd Verkefnisstjórnar og Heimir Pálsson frá Námsgagnastofnun, og hafa þau undanfarna mánuði starfað að margvíslegum undirbúningi verksins. Nú hefur verið gengið frá samningum við milli 10 og 20 höfunda, sem semja munu efni á diskinn, hver á sínu sérsviði. Gert er ráð fyrir að mest af því efni liggi fyrir með haustinu. Einnig hefur verið ráðinn tölvunarfræðingur til að vinna með ritstjórum að ýmiss konar undirbúningi fyrir hönnun og forritun efnisins. Ekki verður annað séð en verkið standi vel, og eigi að geta komið út síðari hluta árs 1999 eins og stefnt er að.
Þriðji verkþátturinn sem Verkefnisstjórn gerði áætlun um í upphafi felst í gerð kennsluefnis handa framhaldsskólum. Sú námsefnisgerð er enn ekki hafin, þótt talsvert undirbúningsstarf hafi verið unnið. Meginástæða þess að enn hefur ekki þótt fært að hefja samningu kennsluefnis er sú endurskoðun aðalnámskrár sem nú stendur yfir. Ljóst er að niðurstaða þeirrar endurskoðunar getur haft mikil áhrif á það hvers konar móðurmálskennsluefni mun vanta. Hér má t.d. benda á að stefnumótunarnefnd menntamálaráðuneytisins hefur lagt til að framhaldsskólinn verði styttur um eitt ár, og fram hefur komið að sú stytting kynni m.a. að leiða til þess að eitthvað af námsefni framhaldsskóla yrði flutt niður í grunnskóla. Því hefur Verkefnisstjórnin talið nauðsynlegt að bíða eftir því að línur færu að skýrast í þessum málum. Hún hefur þó lagt töluverða vinnu í að semja drög að tillögum um námsefni handa byrjendum í framhaldsskólum, og kynnt þessi drög fyrir ýmsum kennurum. Þau hafa hlotið nokkuð misjafnar viðtökur, en þó yfirleitt heldur jákvæðar, og mun Verkefnisstjórnin halda áfram að vinna þessar tillögur í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið. Samningu efnis verður síðan hrundið af stað eins fljótt og hægt er, enda er þessi verkþáttur í verulegri tímakreppu.
Af starfinu er það að öðru leyti að segja að baknefndarfundur var haldinn í janúar, og annar verður væntanlega haldinn með haustinu. Þórunn Blöndal, sem er annar ritstjóri margmiðlunardisksins eins og áður segir, hefur haft vinnuaðstöðu í húsnæði Orðabókar Háskólans á Neshaga 16. Verkefnisstjórnin er nú komin með heimasíðu á veraldarvefnum; slóðin er http://www.rhi.hi.is/~eirikur/verkstj.html. Þar verður að finna fróðleik um viðfangsefni verkefnisstjórnar og framgang þeirra, auk tilkynninga frá verkefnisstjórn og annars sem ástæða þykir til að hafa aðgengilegt.