Eiríkur Rögnvaldsson 

Af starfi Verkefnisstjórnar í íslensku
á vegum Lýðveldissjóðs

Í síðustu Skímu var lofað að halda áfram fréttaflutningi af starfi Verkefnisstjórnar á vegum Lýðveldissjóðs, og skal nú leitast við að efna það loforð. Óþarft er að endurtaka hér lýsingu á meginhugmyndum Verkefnisstjórnar um útgáfuefni, og má vísa um það til síðasta tölublaðs. Þar kom fram að stefnt væri að útgáfu þrenns konar rita; handbóka sem einkum væru ætlaðar kennurum, almenns yfirlitsrits sem höfða ætti til alls almennings, og kennslubóka eða kennsluhefta sem ætluð væru framhaldsskólanemum.

Verkefnisstjórn ákvað að leggja í fyrstu aðaláherslu á undirbúning þriggja viðamikilla handbóka um helstu þætti íslensks máls. Einnig var ákveðið að sérstakur ritstjóri yrði ráðinn að hverri þessara handbóka, og hann réði sér samstarfsmenn í samráði við Verkefnisstjórn. Gengið var frá ráðningu ritstjóra að handbókunum í fyrrahaust. Kristján Árnason prófessor hefur tekið að sér að ritstýra handbók um íslenska hljóðfræði og hljóðkerfisfræði; Guðrún Kvaran forstöðumaður Orðabókar Háskólans stýrir riti um íslenska beygingarfræði, orðmyndunarfræði og orðfræði; og Halldór Ármann Sigurðsson prófessor ritstýrir handbók um íslenska setningafræði. Þau hafa öll þegar hafið störf. Verkefnisstjórnin telur að þessi þáttur verksins sé nú kominn á góðan rekspöl, og því geti hún snúið sér að öðrum þáttum í bili.

Í tillögum Verkefnisstjórnar í fyrrahaust var gert ráð fyrir samningu allnokkurra kennslubóka eða hefta um ýmis svið íslensks máls og málfræði. Verkefnisstjórnin hefur nú hafið undirbúning að þessum ritum, og þótti ráðlegt að fá einhvern vanan móðurmálskennara til liðs við sig til að safna upplýsingum meðal kennara um það efni sem notað væri í skólum, og hvað helst þætti skorta. Leitað var til Samtaka móðurmálskennara, sem brugðust vel við og bentu á Knút Hafsteinsson, íslenskukennara í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann hefur nú safnað upplýsingum frá flestum framhaldsskólum, og er úrvinnsla úr þeim hafin. Frumniðurstöður voru m.a. kynntar á árlegum fundur deildarstjóra í íslensku í framhaldsskólum, sem haldinn var í byrjun maí, en þar fór fram nokkur umræða um verkefni Lýðveldissjóðs. Verkefnisstjórnin hyggst gefa sér góðan tíma til að skoða þessi mál, en með haustinu er vonast til að fyrir liggi fullmótaðar tillögur Verkefnisstjórnar um þennan þátt verksins.

Hugmyndir um almennt yfirlitsrit hafa breyst allverulega frá því sem rakið var í síðustu Skímu. Sú hugmynd kom upp að breyta um útgáfuform, og útbúa margmiðlunarefni á geisladiski í stað prentaðrar bókar. Eftir því sem málið var meira rætt þótti Verkefnisstjórninni þessi hugmynd álitlegri, og í mars var leitað til Námsgagnastofnunar og spurst fyrir um hvort þar á bæ væri áhugi á samstarfi um gerð slíks efnis. Námsgagnastofnun þótti mjög eðlilegur samstarfsaðili, bæði vegna hlutverks síns og einnig þeirrar reynslu sem starfsmenn þar hafa aflað sér við útgáfu Íslandshandbókarinnar á geisladiski. Skemmst er frá því að segja að málaleitan Verkefnisstjórnar var afar vel tekið, og 8. maí voru undirritaðir samningar milli Verkefnisstjórnarinnar og forráðamanna Námsgagnastofnunar. Í lýsingu verksins segir m.a.:

Verkið miðast við að koma að notum í skólum allt frá grunnskóla til háskóla og verða jafnframt uppflettiverk heimilanna til þess að leita fróðleiks af sem allra flestu tagi um tunguna. [...] Breiður markhópur gerir þær kröfur að framsetning verði lipur og ljós en þó án þess að slakað sé á fræðilegum kröfum. Mikla áherslu þarf að leggja á skemmtilegan fróðleik um mál og málnotkun og örva til óvæntra tenginga milli efnisatriða og efnisflokka.

Viðfangsefni verksins verður íslensk tunga, en til þess að gera henni skil þarf mikinn fróðleik um tungumál almennt. Skrifaðar verða flettugreinar um fjölmörg atriðisorð úr öllum þeim fræðigreinum sem tunguna snerta, hvort sem þar er fjallað um hljóð, orð eða texta. Á að giska gæti þarna orðið um að ræða allt að 2.000 flettur. [...] Leggja verður áherslu á að nota bæði myndir og hljóð til stuðnings við textann.

Vinna við verkið hófst þegar í stað, og er stefnt að því að nú í lok júní liggi fyrir nákvæm efnislýsing, þ. á m. flettulisti. Samning efnis á svo að hefjast með haustinu, en áætlað er að diskurinn komi út í september 1999.

Að lokum vill Verkefnisstjórnin hvetja alla móðurmálskennara og aðra áhugamenn um þessi verk til að senda sér athugasemdir, ábendingar og tillögur.