Reglugerð um Lýðveldissjóð

nr. 324/1995

1. gr.
Lýðveldissjóður er stofnaður í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins. Hann er eign ríkisins.
Starfstími sjóðsins er frá ársbyrjun 1995 til ársloka 1999.

2. gr.
Hlutverk sjóðsins er tvíþætt: að stuðla að rannsóknum á lífríki sjávar og efla íslenska tungu.

3. gr.
Alþingi kýs sjóðnum þriggja manna stjórn.
Stjórnin skal hafa yfirumsjón með verkefnum sem unnin eru á vegum sjóðsins. Hún skal gangast fyrir vali tveggja verkefnisstjórna. Önnur skal hafa á hendi faglega yfirstjórn áætlunar um vistfræðirannsóknir sjávar og hin áætlunar um gerð kennsluefnis í íslensku máli. Í verkefnisstjórnum skuli sitja a.m.k. þrír menn. Stjórn sjóðsins skal staðfesta verkefnaáætlanir endanlega þegar tillögur verkefnisstjórna liggja fyrir.
Skrifstofa Alþingis leggur stjórninni til funda- og ritaraþjónustu.

4. gr.
Tekjur sjóðsins eru 100 millj. kr. árlegt framlag úr ríkissjóði.
Helmingi fjárins, 50 millj. kr., skal verja til vistfræðirannsókna sjávar skv. sérstakri rannsóknaáætlun og helmingi til að efla íslenska tungu skv. nánari ákvæðum í reglugerð þessari.
Stjórn sjóðsins skal gera árlega fjárhagsáætlun sem miðist við að greiðslur úr sjóðnum til verkefna og styrkja séu í samræmi við tekjur hans. Heimilt er þó að geyma fjárveitingar til næsta árs.

5. gr.
Sjóðurinn skal varðveittur í ríkissjóði. Greiðslur fara fram skv. skriflegri beiðni sjóðsstjórnar.
Tilkynna skal 17. júní ár hvert um fjárveitingar úr sjóðnum.
Rekstrarkostnaður sjóðsins, þar á meðal auglýsingar, gerð merkja, viðurkenningarskjala og gripa, þóknun stjórnarmanna o.fl., skal greiddur sérstaklega úr ríkissjóði. Hann má þó eigi nema hærri fjárhæð en 1,5% af tekjum sjóðsins.

6. gr.
Verkefnisstjórn vistfræðirannsókna skal, á þann hátt sem sjóðsstjórn telur fullnægjandi, leita eftir hugmyndum og tillögum stofnana og vísindamanna um styrki til rannsókna á vistfræði sjávar við Ísland. Þegar verkefnisstjórninni hafa borist umsóknir skal hún meta þær og gera tillögu um afgreiðslu þeirra til sjóðsstjórnar. Þess skal sérstaklega gætt að rannsóknarverkefni séu samstæð og myndi heild, tvö til fjögur meginsvið.

7. gr.
Ákvörðun um hvernig fé til vistfræðirannsókna sjávar verður ráðstafað skal haga þannig:
a. Á fyrsta starfsári skal ákveða ráðstöfun u.þ.b. tveggja þriðju hluta fjárins til verkefna sem verkefnisstjórn gerir tillögur um,
b. Á öðru starfsári, eða síðar, skal ákveða ráðstöfun u.þ.b. þriðjungs fjárins.

8. gr.
Fé til að efla íslenska tungu skal varið með þessum hætti:
a. Um þriðjungi fjárins skal varið til að efla Málræktarsjóð,
b. Um þriðjungi skal varið til að endurnýja og bæta kennsluefni í íslensku máli, einkum á framhaldsskólastigi, skv. sérstakri verkáætlun,
c. Um þriðjungi skal stjórn sjóðsins verja til verkefna sem að mati hennar eru til þess fallin að efla íslenska tungu.

9. gr.
Verkefnisstjórn í íslensku skal gera áætlun um gerð kennsluefnis, kennslu- og handbóka fyrir framhaldsskóla svo og efstu bekki grunnskóla og fyrstu ár háskólanáms. Miða skal við að verkinu ljúki á fjórum árum. Verkefnisstjórn skal gera tillögu til sjóðsstjórnar um ráðningu málvísindamanna og kennara til starfa við verkefnið, svo og fjárhagsáætlun fyrir hvert ár. Leita skal staðfestingar sjóðsstjórnar á áætlunum skv. þessari mgr.
Verkefnisstjórn er heimilt, að höfðu samráði við sjóðsstjórn, að gera samninga við skóla og stofnanir um að starfsmenn þeirra vinni að verkefnum fyrir sjóðinn um tiltekinn tíma.

10. gr.
Stjórn sjóðsins er heimilt að verja árlega 10% af tekjum sjóðsins til minni háttar verkefna:
a. á sviði vistfræðirannsókna sjávar,
b. til eflingar íslenskri tungu.
Stjórnin skal auglýsa eftir styrkumsóknum í tæka tíð svo að ljúka megi úthlutun fyrir 17. júní ár hvert.
Fjármunir, sem veittir verða skv. þessari grein, koma til frádráttar úthlutun skv. b-lið 7. gr. og c-lið 8. gr.

11. gr.
Stjórn sjóðsins er heimilt að veita árlega viðurkenningu einstaklingum, félögum eða stofnunum sem:
a. skarað hafa fram úr á sviði sjávarrannsókna eða eflt þekkingu landsmanna á lífríki sjávar,
b. hafa sýnt íslenskri tungu sérstaka ræktarsemi og þannig eflt með þjóðinni metnað til að varðveita og viðhalda móðurmálinu.

12. gr.
Varsla sjóðsins og dagleg umsýsla heyrir undir forsætisráðuneytið.
Ríkisendurskoðun skal árlega gera endurskoðunarskýrslu fyrir sjóðinn og senda hana forsætisráðherra og Alþingi.

13. gr.
Stjórn sjóðsins skal fyrir lok hvers starfsárs gera skýrslu um starfsemi sjóðsins og afhenda hana forsætisráðherra og Alþingi.

14. gr.
Stjórn sjóðsins skal setja sér nánari reglur um fjárúthlutanir sem eru á hennar vegum.

15. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er að höfðu samráði við forsætisnefnd Alþingis, sbr. 6. gr. laga nr. 125/1994, öðlast þegar gildi.